Government Offices of Iceland

01/27/2026 | Press release | Distributed by Public on 01/27/2026 10:56

Mælti fyrir þremur frumvörpum í dag

Ragnar Þór Ingólfsson, félags- og húsnæðismálaráðherra, mælti í dag fyrir þremur frumvörpum á Alþingi. Um er að ræða frumvörp sem fela í sér fyrstu heildstæðu lögin um framkvæmd öryggisráðstafana samkvæmt dómsúrlausn hér á landi, ný lög um réttindavernd fatlaðs fólks og styttingu bótatímabils atvinnuleysistrygginga.

1) "Hópur sem kerfið hefur ekki náð utan um"

Í frumvarpinu um framkvæmd öryggisráðstafana er lagt til að nýrri stofnun, Miðstöð um öryggisráðstafanir, verði komið á fót sem sjái um framkvæmdina. Ráðherra benti í framsöguræðu sinni á að lengi hefði verið ljóst að þörf væri á að taka heildstætt utan um málaflokkinn.

  • "Um er að ræða einstaklinga sem fremja alvarleg brot en þannig er talið ástatt um að þeir séu ósakhæfir eða að refsing muni ekki bera árangur. Eru þetta því einstaklingar sem eru ekki taldir hæfir til að vistast í fangelsi en þó er talið nauðsynlegt að gera viðeigandi ráðstafanir til að hætta stafi ekki af þeim. Hér er því um afar brýnt mál að ræða," sagði hann.
  • "Til viðbótar við þennan hóp verður hér til úrræði fyrir þá einstaklinga sem eru að ljúka afplánun en eru enn taldir hættulegir samfélaginu og þurfa því að sæta öryggisgæslu að afplánun lokinni."

"Það frumvarp sem ég legg hér fram er bæði mikilvægt og löngu tímabært," sagði ráðherra í þinginu og undirstrikaði jafnframt að frumvarpið varðaði mörg svið. Það hefði snertifleti við réttarvörslukerfið vegna einstaklinga sem gert væri að sæta öryggisráðstöfunum vegna refsiverðs verknaðar. Það varðaði heilbrigðiskerfið og málefni fatlaðs fólks þegar um væri að ræða einstaklinga sem væru ósakhæfir eða refsing ekki talin líkleg til að bera árangur. Oft væri um einstaklinga að ræða sem þyrftu á sérhæfðri þjónustu að halda vegna geðræns vanda og í sumum tilvikum vegna fötlunar.

Þá benti ráðherra á að eins og staðan væri í dag væri hvorki til staðar heildstæð lagaumgjörð né samræmt verklag um þjónustu við þá einstaklinga sem brotið hefðu alvarlega af sér en þyrftu sérhæfða þjónustu.

"Dómsorð hljóðar stundum á þá leið að ákærði skuli sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, stundum er kveðið á um tiltekna meðferð sem ákærði skuli sæta og stundum segir að ákærði skuli fá þjónustu í tilteknu búsetuúrræði. Af hálfu stjórnvalda hefur því ekki alltaf verið ljóst hvernig bregðast eigi við dómsúrlausn eða hver beri ábyrgð á framkvæmd hennar. Þetta hefur leitt til mikillar réttaróvissu fyrir þá einstaklinga sem gert hefur verið að sæta slíkum ráðstöfunum," sagði ráðherra.

"Afleiðingarnar hafa verið alvarlegar. Mál hafa lent á milli skips og bryggju eftir að dómar hafa fallið og einstaklingar hafa verið án eftirlits, nauðsynlegrar þjónustu og stuðnings þrátt fyrir að dómur kveði á um öryggisráðstafanir. Auk þess er ekki alltaf tryggt að ráðstafanir vari ekki lengur en nauðsyn krefur. Þessu erum við núna að breyta."

Ekki hafa áður verið til heildstæð lög hér á landi um framkvæmd öryggisráðstafana sem einstaklingum er gert að sæta á grundvelli almennra hegningarlaga.

Samhliða framlagningu frumvarpsins hefur dómsmálaráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingar á VII. kafla almennra hegningarlaga til að skýra ákvæði um öryggisráðstafanir. Þar með verður samræmi í dómaframkvæmd aukið og ábyrgð á framkvæmd dóma verður skýr.

2) Réttindavernd fatlaðs fólks

Félags- og húsnæðismálaráðherra mælti einnig í dag fyrir frumvarpi um réttindavernd fatlaðs fólks. Það var unnið samhliða áðurnefndum frumvörpum sem fjalla um öryggisráðstafanir og ætlunin er að þingleg meðferð þeirra haldist í hendur.

Um ný heildarlög er að ræða og gert ráð fyrir að þau leysi af hólmi gildandi lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

  • Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning við vernd hvers konar réttinda og stuðla að bættu jafnrétti og aðgengi í þjónustu við fatlað fólk.
  • Jafnframt er áhersla lögð á að tryggja að sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks sé virtur og fyllsta réttaröryggis gætt þegar brýna nauðsyn ber til að grípa inn í líf þess. Við gerð frumvarpsins var tekið mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Frumvarpinu er ætlað að skerpa á hlutverki réttindagæslu fyrir fatlað fólk og tryggja skýrari verkaskiptingu á milli sýslumanna og réttindagæslu svo ljóst sé til hvers ætlast sé af þeim.

Frumvarpinu er einnig ætlað að bregðast við kerfislægum hindrunum sem ákveðinn hópur fatlaðs fólks hefur mætt við aðgang að fjármálum sínum, einkum þeirra sem búa í búsetukjörnum og geta ekki notað rafræn skilríki.

Þá er frumvarpinu ætlað að auka skilvirkni í málsmeðferð og ákvarðanatöku í málum er varða nauðung í þjónustu við fatlað fólk, einfalda ferla, minnka biðtíma eftir ákvörðun, auðvelda eftirlit og tryggja að mál séu áfram afgreidd á samræmdan hátt.

"Frumvarp þetta markar mikilvægt framfararskref í því að tryggja fötluðu fólki jafnræði og auka þátttöku og inngildingu þess í samfélaginu. Ávinningur samfélagsins í heild er því mikill," sagði Ragnar Þór Ingólfsson í framsöguræðu sinni í dag.

Ástæða þótti til að breyta heiti laganna í réttindavernd fatlaðs fólks þar sem heitið lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk endurspeglar ekki að fullu efni þeirra. Lögin fjalla ekki eingöngu um réttindagæsluna, heldur einnig um hlutverk persónulegra talsmanna við að aðstoða notendur við gæslu og vernd hagsmuna sinna og bann við beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk.

3) Stytting á bótatímabili atvinnuleysistrygginga

Loks mælti félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir frumvarpi í dag sem felur í sér breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu.

  • Markmiðið er að grípa fólk fyrr en áður og stuðla að aukinni virkni hjá þeim hópi sem er útsettur fyrir langtímaatvinnuleysi.
  • Hvergi á Norðurlöndum er bótatímabil atvinnuleysistrygginga jafn langt og á Íslandi eða 30 mánuðir. Lagt er til að þessu verði breytt og að tímabilið verði þess í stað 18 mánuðir. Styttingin tekur ekki til einstaklinga sem þegar fá greiddar atvinnuleysisbætur.
  • Samhliða þessu verður áhersla lögð á að veita einstaklingsmiðaða þjónustu enn fyrr en áður og að aðstoða einstaklinga sem hafa verið lengi án atvinnu við að komast út á vinnumarkaðinn.

Í frumvarpinu kemur fram að aðgerðir stjórnvalda síðastliðin ár til að draga úr langtímaatvinnuleysi hafi skilað góðum árangri. Reynslan hafi sýnt að afar mikilvægt sé að veita atvinnuleitendum sem fyrst aðstoð í kjölfar atvinnumissis og stuðla að aukinni virkni hjá þeim hópi sem líklegur sé til að verða lengi án atvinnu. Því lengur sem fjarvera einstaklings frá vinnumarkaði vari þeim mun ólíklegra þyki að viðkomandi snúi til baka á vinnumarkað. Því sé talið brýnt að fjarveran sé ekki of löng.

Eitt af meginmarkmiðum stjórnvalda sé að flestir geti verið þátttakendur á vinnumarkaði en almenn þátttaka á vinnumarkaði sé talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun, vanlíðan og fátækt.

Í frumvarpinu kemur fram að samkvæmt gögnum frá Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnun hafi 55% af þeim sem fullnýttu rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á árunum 2023 og 2024 verið í vinnu í janúar 2025.

Atvinnuleysistryggingakerfi milli Norðurlanda eru ekki að öllu leyti sambærileg en í meðfylgjandi töflu má þó sjá samanburð á milli Norðurlanda og skilyrði þess að atvinnuleitandi teljist hafa áunnið sér fullan bótarétt: 



Samhliða ofangreindu er í frumvarpinu lagt til að breyta lágmarksskilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta þannig að atvinnuleitandi þurfi að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 12 mánuði á ávinnslutímabili til að teljast tryggður innan kerfisins en í gildandi kerfi er gerð krafa um þátttöku á vinnumarkaði í 3 mánuði. Eðlilegt þyki að gerðar séu auknar kröfur frá því sem nú er hvað varðar atvinnuþátttöku einstaklinga til þess að þeir geti talist tryggðir samkvæmt lögunum. Eru þær auknu kröfur til samræmis við þær kröfur sem gerðar eru hvað varðar atvinnuþátttöku þeirra sem geta talist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfa annars staðar á Norðurlöndum.

Government Offices of Iceland published this content on January 27, 2026, and is solely responsible for the information contained herein. Distributed via Public Technologies (PUBT), unedited and unaltered, on January 27, 2026 at 16:56 UTC. If you believe the information included in the content is inaccurate or outdated and requires editing or removal, please contact us at [email protected]