Reykjavik University

01/15/2025 | Press release | Distributed by Public on 01/15/2025 06:23

Alltaf lærdómsríkt að flytja til nýs lands

15. janúar 2025

Alltaf lærdómsríkt að flytja til nýs lands

Anna Halldóra N. Snorradóttir fór í rannsóknarstarfsnám í háskólann í Bonn í Þýskalandi á síðustu önn. Anna Halldóra stundar meistaranám í stafrænni heilbrigðistækni við Háskólann í Reykjavík.

Anna Halldóra greip tækifærið þegar auglýst var eftir umsækjendum um starfsnám í Bonn.

"Ég sá auglýsingu í tölvupósti frá HR um rannsóknarstarfsnám í Bonn gegnum evrópska háskólanetið NeurotechEU. Ég kynnti mér málin og ákvað að sækja bara um og sjá svo til hvað ég myndi gera. Svo fann ég þegar ég fékk samþykkt að ég var mjög spennt að prófa eitthvað nýtt og stækka sjóndeildarhringinn!"

Vann með mælingar á borð við MRI, EEG og eyetracking

Anna Halldóra dvaldi í tvo mánuði í Bonn og var þar meðlimur rannsóknaseturs sem heitir Neuromadlab. "Rannsóknir þeirra einblína á hvatningu (e.motivation). Rannsóknin sem var í gangi á meðan ég var úti gekk út á að skoða örvun flökkutaugarinnar (e. vagus-nerve) og áhrif örvunarinnar á hvatningu hjá einstaklingum með þunglyndi, ásamt því að skoða tengingu þess við "gut-brain axis", segir Anna Halldóra - og við hvetjum lesendur sem klóra sér í hausnum en eru áhugasöm auðvitað til að kynna sér þessi hugtök og rannsóknirnar inni á vefsíðu rannsóknasetursins.

"Í rannsóknasetrinu vorum við sem dæmi að taka á móti þátttakendum og gera ýmsar mælingar líkt og MRI, EEG og eyetracking. Ég hafði aldrei unnið með slíkar mælingar og lærði helling. Mín verkefni snérust þó aðallega um að forvinna gögn og forrita tilraun sem yrði notuð í komandi rannsóknum."

Anna Halldóra tók þátt í að gera ýmsar mælingar í starfsnáminu, ómetanleg reynsla sem mun nýtast í áframhaldandi námi og í framtíðarstörfum.

Mikill kostur að kynnast starfsemi NeurotechEU

Formlegur vinnutími í starfsnáminu var að sögn Önnu Halldóru frá 9-17 alla virka daga. "En það var þó sveigjanlegt, til dæmis ef ég var að ferðast um Þýskaland var alveg möguleiki á að taka langa helgi. Það er alltaf lærdómsríkt og gaman að flytja til nýs lands, kynnast nýrri menningu og fólki."

Ekki amalegt að geta setið úti og farið yfir rannsóknarniðurstöður.

Starfsnám er að sögn Önnu Halldóru afar gott til að öðlast reynslu af því að starfa við rannsóknir og ekki síst ef stefnan er tekin á doktorsnám. "Síðan var mikill kostur að ná að kynnast starfi NeurotechEU sem er háskólanet nokkurra háskóla í Evrópu á sviði taugavísinda og tækni. Háskólinn í Reykjavík er hluti af þessu háskólaneti. Taugavísindi og tækni hafa alltaf verið spennandi viðfangsefni fyrir mér og NeurotechEU er því fullkominn vettvangur til að hitta annað fólk með svipað áhugasvið. Í framhaldi af þessu starfsnámi fór ég einmitt í Hakkaþon í Istanbúl á vegum NeurotechEU. Það eru margir viðburðir í boði yfir árið fyrir nemendur, ég mæli innilega með að fylgjast með og prófa að sækja um þegar tækifærin bjóðast."

Gróðursældin og náttúrufegurðin í Bonn skemmdi ekki fyrir upplifuninni í starfsnáminu.
Dagsetning
15. janúar 2025
Deila

Nýjustu fréttirnar

Sjá allar fréttir