01/14/2026 | Press release | Distributed by Public on 01/14/2026 08:15
Ný vaktstöð netöryggis (e. National Security Operations Center), sem tryggir sólarhringsvöktun og skjót viðbrögð við netógnum, er í burðarliðnum hjá CERT-IS. Verkefnið er samfjármagnað af Evrópusambandinu í gegnum styrkjaáætlunina Digital Europe og er liður í að efla netöryggi á Íslandi.
"Vaktstöðvar netöryggis eru lykilþáttur í að verjast netógnum, sem eru sívaxandi alþjóðlegt vandamál. Netógnir geta haft alvarleg áhrif á þjóðaröryggi og mikilvæga innviði sem við reiðum okkur á í daglegu lífi, og við Íslendingar erum auðvitað ekki ónæm fyrir því," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. "Slíkar stöðvar stytta viðbragðstíma, draga úr tjóni, auka öryggi innviða og tryggja samfellu í rekstri mikilvægrar þjónustu. Því fagna ég sérstaklega þessum aukna viðbúnaði, sem er skref í þá átt að tryggja varnir Íslands. Verkefni sem við tökum alvarlega á þessum tímum."
Með vaktstöðinni verður fylgst með rauntímagögnum úr íslenska netumdæminu allan sólarhringinn, frávik greind samstundis og brugðist hratt við áhættu til að draga úr skaða. Vaktstöðin mun hafa beina tengingu inn í netöryggismiðstöð Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna (Nordic Baltic Cyber Consortium, NBCC). Með því skapast grundvöllur fyrir miðlun rauntímaupplýsinga um netógnir og áhættur bæði milli aðildarríkjanna og til innlendra og erlendra samstarfsaðila.
Hönnun og uppbygging er hafin í húsnæði utanríkisráðuneytisins við Austurhöfn í Reykjavík. Áætlað er að vaktstöðin verði gangsett árið 2027 og nái fullri virkni undir lok sama árs með sólarhringsvöktun. Með þessari uppbyggingu verður Ísland í hópi þeirra ríkja sem bjóða upp á stöðuga vöktun og skjót viðbrögð við netógnum.
Verkefnið styður einnig við markmið og kröfur Evrópska netöryggisregluverksins, þar á meðal NIS2 og EU Cyber Solidarity Act.