Government Offices of Iceland

10/02/2024 | Press release | Distributed by Public on 10/02/2024 12:17

Þróun öryggismála rædd í Varsjá

Aukinn varnarviðbúnað Atlantshafsbandalagins, eindreginn stuðning við Úkraínu og mikilvægi þess að standa vörð um lýðræði og alþjóðlög voru leiðarstefið á Warsaw Security Forum, alþjóðlegri öryggisráðstefnu sem haldin var í Varsjá dagana 1.-2. október. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í pallborðsumræðu um öryggi og varnir í Evrópu. Í innleggi sínu lagði ráðherra áherslu á mikilvægi þess að setja aukinn varnarviðbúnað og stuðning við Úkraínu í samhengi við öryggi og afkomu fólks og þau gildi og alþjóðlegu leikreglur sem hafa tryggt hagsæld og frið.

"Við þurfum að leiða hugann að því hvað við viljum standa vörð um og snertir okkar daglega líf, atvinnu og fjölskyldur. Það er ekki lengur hægt að gefa sér að friður, öryggi og virðing fyrir alþjóðalögum séu sjálfsagðir hlutir í Evrópu. Við þurfum að vinna að því að verja friðinn og efla varnir og viðnámsþol okkar eigin samfélaga," segir Þórdís Kolbrún.

Á seinni degi ráðstefnunnar tók ráðherra þátt í morgunverðarfundi kvenna í öryggismálum þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi virkrar þátttöku kvenna í stefnumótun og aðgerðum í öryggis- og varnarmálum.

Öryggisráðstefnan er árleg ráðstefna sem haldin er í Varsjá þar sem meðal annars ráðherrar, þingmenn, fjölmiðlafólk og fólk úr fræðasamfélaginu sækir þar sem teknar eru fyrir helstu áskoranir í öryggismálum og rætt um þróun alþjóðamála.