Results

Government Offices of Iceland

01/11/2026 | Press release | Distributed by Public on 01/11/2026 14:52

Utanríkisráðherra Þýskalands í heimsókn á Íslandi

Samstarf Íslands og Þýskalands á sviði alþjóða- og öryggismála, málefni Grænlands, Evrópumál, norðurslóðir og innrásarstríð Rússlands í Úkraínu voru í brennidepli á fundi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og Johann Wadephul, utanríkisráðherra Þýskalands, sem fram fór á Keflavíkurflugvelli í dag.

Í ljósi þeirrar ólgu sem er í alþjóðamálum er brýnt að líktþenkjandi ríki standi vörð um mannréttindi, lýðræði og virðingu fyrir alþjóðalögum. Ræddu ráðherrarnir hvernig treysta megi grundvöll alþjóðasamstarfs og það alþjóðakerfi sem á að tryggja frið og öryggi.

Rætt var um vaxandi tvíhliða samstarf Íslands og Þýskalands, meðal annars í öryggis- og varnarmálum, en viljayfirlýsing ríkjanna á því sviði var undirrituð í október síðastliðnum. Þá ræddu ráðherrarnir áframhaldandi stuðning við varnarbaráttu Úkraínu og framlag Evrópuríkja til friðarumleitana, meðal annars með öryggistryggingum til handa Úkraínu sem ræddar voru á leiðtogafundi í París í vikunni.

"Þýskaland er eitt af mikilvægustu samstarfsríkjum okkar og fundur okkar í dag er skýr vitnisburður um það. Við erum öflugir bandamenn, bæði í Evrópusamvinnunni og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í áratugi, og höfum aukið tvíhliða samstarf okkar í öryggis- og varnarmálum," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. "Þá erum við einhuga um að efla enn frekar okkar farsæla pólitíska-, viðskipta - og menningarsamstarf, sem hefur reynst þjóðum okkar gjöfult."

Government Offices of Iceland published this content on January 11, 2026, and is solely responsible for the information contained herein. Distributed via Public Technologies (PUBT), unedited and unaltered, on January 11, 2026 at 20:52 UTC. If you believe the information included in the content is inaccurate or outdated and requires editing or removal, please contact us at [email protected]