01/11/2026 | Press release | Distributed by Public on 01/11/2026 14:52
Samstarf Íslands og Þýskalands á sviði alþjóða- og öryggismála, málefni Grænlands, Evrópumál, norðurslóðir og innrásarstríð Rússlands í Úkraínu voru í brennidepli á fundi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og Johann Wadephul, utanríkisráðherra Þýskalands, sem fram fór á Keflavíkurflugvelli í dag.
Í ljósi þeirrar ólgu sem er í alþjóðamálum er brýnt að líktþenkjandi ríki standi vörð um mannréttindi, lýðræði og virðingu fyrir alþjóðalögum. Ræddu ráðherrarnir hvernig treysta megi grundvöll alþjóðasamstarfs og það alþjóðakerfi sem á að tryggja frið og öryggi.
Rætt var um vaxandi tvíhliða samstarf Íslands og Þýskalands, meðal annars í öryggis- og varnarmálum, en viljayfirlýsing ríkjanna á því sviði var undirrituð í október síðastliðnum. Þá ræddu ráðherrarnir áframhaldandi stuðning við varnarbaráttu Úkraínu og framlag Evrópuríkja til friðarumleitana, meðal annars með öryggistryggingum til handa Úkraínu sem ræddar voru á leiðtogafundi í París í vikunni.
"Þýskaland er eitt af mikilvægustu samstarfsríkjum okkar og fundur okkar í dag er skýr vitnisburður um það. Við erum öflugir bandamenn, bæði í Evrópusamvinnunni og á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í áratugi, og höfum aukið tvíhliða samstarf okkar í öryggis- og varnarmálum," segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. "Þá erum við einhuga um að efla enn frekar okkar farsæla pólitíska-, viðskipta - og menningarsamstarf, sem hefur reynst þjóðum okkar gjöfult."