11/15/2024 | Press release | Distributed by Public on 11/15/2024 05:48
Dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóri hafa kynnt nýja stefnu stjórnvalda í málefnum landamæra og landsáætlun um samþætta landamærastjórnun.
Ný stefna stjórnvalda í málefnum landamæra hefur það meginmarkmið að styrkja landamæraeftirlit með því að grípa til aðgerða til að takast á við aukna umferð farþega til landsins og draga úr skipulagðri brotastarfsemi sem virðir engin landamæri. Markmið stjórnvalda í málaflokknum byggja að miklu leyti á og eru í samræmi við markmið Schengen-samstarfsins og miða að því að tryggja örugga og skilvirka stjórnun landamæra, þar sem mannréttindi eru virt og greitt er fyrir lögmætri för yfir landamæri.
Stefna stjórnvalda í málefnum landamæra var fyrst gefin út árið 2019 og gilti til ársins 2023. Embætti ríkislögreglustjóra var falið að vinna að gerð nýrrar stefnu auk landsáætlunar og aðgerðaáætlunar sem byggja á stefnunni og regluverki Schengen-samstarfsins. Settur var á laggirnar stýrihópur sem hafði yfirumsjón með verkefninu en landamæradeild ríkislögreglustjóra, sem er samhæfingaraðili í málefnum landamæra, gegndi hlutverki samræmingaraðila. Þátttakendur í vinnu við gerð stefnunnar og landsáætlunar komu frá embætti ríkislögreglustjóra, lögregluembættunum, Útlendingastofnun, Skattinum, Landhelgisgæslunni og dómsmálaráðuneyti.
Meginmarkmið stjórnvalda í málefnum landamæra
Til þess að ná meginmarkmiðum stjórnvalda í málefnum landamæra verður byggt á tilteknum áherslum sem eru nánar útfærðar í landsáætlun um samþætta landamærastjórnun og aðgerðaáætlun sem fylgir henni. Þessum áherslum er að ætlað að mæta þeim áskorunum sem fyrir eru í málaflokknum. Lúta áherslurnar einkum að mikilvægi þess að viðhafa öflugt og skilvirkt landamæraeftirlit, að veita sterka viðspyrnu gegn skipulagðri brotastarfsemi og tryggja skilvirka og mannúðlega móttöku og brottflutning útlendinga. Því til viðbótar kveður stefnan á um innleiðingu nýrra tæknilausna á borð við fyrirhuguð snjalllandamæri á ytri landamærum og nauðsyn þess að efla menntun lögreglumanna og landamæravarða. Þá er lögð áhersla á samvinnu stofnana innanlands sem og við alþjóðlegar stofnanir til að efla og auka skilvirkni landamæravörslu, með það að leiðarljósi að greiða götu þeirra sem ferðast löglega, stemma stigu við alþjóðlegri glæpastarfsemi og tryggja öryggi borgaranna.
Samhliða útgáfu stefnunnar var ný landsáætlun um samþætta landamærastjórn fyrir árin 2024-2028 gefin út í september en markmið hennar er að samhæfa framkvæmd allra þeirra stjórnvalda sem koma að landamæramálefnum og tryggja náið samstarf þeirra með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum.
Dómsmálaráðherra hefur skipað stýrihóp í málefnum landamæra sem mun bera ábyrgð á og fylgja eftir stefnunni og landsáætluninni og vakta innleiðingu aðgerða þvert á embætti og stofnanir, auk þess sem og að tryggja samhæfingu landamæraaðgerða um allt land.