Prime Minister's Office of Iceland

01/16/2025 | Press release | Distributed by Public on 01/16/2025 10:46

Bréf ráðherra til forstöðumanna um hagræðingu

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa ritað forstöðumönnum hjá ríkinu bréf þar sem óskað er eftir hugmyndum og sjónarmiðum um hvernig megi hagræða í rekstri ríkisins.

Í bréfinu segir m.a. að sjónarmið stjórnenda hjá ríkinu séu nauðsynleg til að fá dýpri innsýn í þau hagræðingartækifæri sem til staðar eru. Forstöðumenn eru beðnir um tillögur að hagræðingu, einföldun stjórnsýslu og sameiningu stofnana.

Fjallað verður um tillögur, hugmyndir og sjónarmið sem berast frá forstöðumönnum í starfshópi á vegum forsætisráðuneytisins. Niðurstöður þeirrar vinnu verða nýttar til að móta áætlun til lengri tíma um umbætur í rekstri ríkisins. Samhliða verður unnið með tillögur úr fyrri samráðsferlum við stjórnendur og starfsfólk ríkisins.

Samráð við forstöðumenn hjá ríkinu um hagræðingu í rekstri ríkisins kemur til viðbótar við samráð við almenning. Nú þegar hafa rúmlega þrjú þúsund umsagnir borist í Samráðsgátt stjórnvalda en samráðið stendur til 23. janúar nk.