The President of Iceland

10/21/2024 | Press release | Distributed by Public on 10/22/2024 04:26

Sendiráð Norðurlanda í Berlín 25 ára

Fréttir|21. okt. 2024

Sendiráð Norðurlanda í Berlín 25 ára

Forsetahjón eru nú stödd í Þýskalandi vegna 25 ára afmælis norrænu sendiráðanna í Berlín. Í tilefni afmælisins er efnt til hátíðardagskrár með þátttöku þjóðhöfðingja og fulltrúa konungsfjölskyldna Norðurlanda.

Sjá myndasafn: 25 ára afmæli norrænu sendiráðanna í Berlín

Sendiráð Norðurlandanna í Berlín voru opnuð 20. október 1999 og reka þau þar sameiginlegu menningarmiðstöðina Felleshus þar sem efnt er til ýmissa norrænna menningarviðburða. Fyrirkomulagið, sem er einstakt á heimsvísu, hefur reynst afar vel og orðið til þess að efla enn frekar náið samstarf Norðurlanda í Þýskalandi.

Á fjórða hundrað gesta sóttu 25 ára afmælishátíðina sem fram fór á sendiráðssvæðinu síðdegis í dag. Forseti Þýskalands flutti þar ávarp, auk forseta Íslands og forseta Finnlands, og einnig Hákon, krónprins Noregs, og Viktoría, krónprinsessa Svíþjóðar. Þjóðhöfðingjarnir heimsóttu svo hver sitt sendiráð og ræddu forseti og Björn Skúlason, eiginmaður hennar, við starfsfólk íslenska sendiráðsins.

Ávarp forseta Íslands á afmælishátíðinni (á ensku) má lesa hér.

Um kvöldið bauð svo Þýskalandsforseti þjóðhöfðingjum og ríkisörfum Norðurlanda auk sendinefnda til hátíðarkvöldverðar í forsetahöllinni, Schloss Bellevue. Þar flutti Friðrik X. Danakonungur ræðu fyrir hönd Norðurlandaþjóðanna.

Áður en hátíðardagskráin hófst buðu Frank-Walter Steinmeier Þýskalandsforseti og Elke Büdenbender, eiginkona hans, forsetahjón Íslands velkomin með athöfn við forsetahöllina, þar sem þjóðsöngvar beggja landa voru leiknir að viðstöddum heiðursverði. Við tók tvíhliða fundur forseta Þýskalands og Íslands, sem Auðunn Atlason, sendiherra Íslands í Þýskalandi, og Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, sátu einnig ásamt forsetaritara. Þá átti forseti hádegisverðarfund með Alexander Stubb, forseta Finnlands.

Á meðan á Þýskalandsförinni stendur hitta forsetahjón einnig fulltrúa Íslendingasamfélagsins í Berlín og heimsækja tvo háskóla í borginni.

Sjá fréttatilkynningu.

Deila