01/15/2025 | News release | Distributed by Public on 01/15/2025 10:03
Ummæli Donald Trump um Grænland og óformleg heimsókn sonar hans Donald Trump Jr. hafa vakið upp umræður um fullveldi, landstjórn og alþjóðalög. Í fyrri forsetatíð á árinu 2019 ámálgaði Trump hugmynd um að kaupa Grænland. Þessari hugmynd var á þeim tíma vísað á bug sem hverri annarri vitleysu. Grænlensk og dönsk stjórnvöld lýstu því yfir að Grænland væri ekki til sölu og að Grænlendingar réðu eigin framtíð. Trump endurvekur núna málið og gengur skrefinu lengra og gefur til kynna að bandarískt að "eignarhald og yfirráð" yfir Grænlandi sé "alger nauðsyn." Aðspurður játaði Trump að hann útilokaði ekki beitingu valds til að koma Grænlandi undir yfirráð Bandaríkjanna. Þessar yfirlýsingar, hvort sem þær ber að taka alvarlega eða sem hverri annarri staðleysu, vekja áleitnar spurningar um hlutverk alþjóðalaga, mikilvægi norðurslóða og sjálfstæði Grænlands.
Nýjustu ummæli Trumps um Grænland ganga lengra en þau fyrri frá 2019 þar sem hann hafði orð á kaupum Bandaríkjanna á Grænlandi. Í þetta sinn talar hann um möguleg yfirráð yfir Grænlandi. Þó að ummæli hans um að útiloka ekki valdbeitingu megi líta á sem hálfkæring og sem svar við spurningu um bæði Grænland og Panamaskurðinn, endurspegla þau allt að einu hugmyndir hans um að forgangsraða í þágu bandarískra hagsmuna umfram alþjóðleg viðmið. Þessi orðræða hefur skiljanlega valdið ugg á Grænlandi og víðar. Eftir að hafa ítrekað að "Grænland tilheyri íbúum Grænlands," kallaði Múte Egede, forsætisráðherra Grænlands, eftir yfirveguðum og samræmdum viðbrögðum.
Hugmyndir þessar skapa hugrenningartengsl við hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu. Samanburðurinn er þó ekki nákvæmur. Grænland er ekki enn fullvalda ríki samkvæmt þjóðarétti heldur sjálfstjórnarsvæði innan konungsríkisins Danmerkur. Grænlendingar eru á hinn bóginn viðurkenndir sem þjóð (e. People; d. folk)" samkvæmt alþjóðalögum, með fullan rétt til að ákveða eigin framtíð. Leið til fullkomins sjálfstæðis eða annarrar breytingar á stöðu Grænlands er að finna í sjálfstjórnarlögum fyrir landið. Í stuttu máli, svo það sé nú endurtekið einu sinni enn, að Grænland er einfaldlega ekki hægt að kaupa af Danmörku eða eignast með öðrum hætti. Í staðinn býðst Bandaríkjunum og öðrum ríkjum eða alþjóðastofnunum að vinna með Grænlandi á jafnræðisgrundvelli. Öll valdbeiting eins NATO-ríkis gegn öðru myndi ekki aðeins brjóta í bága við alþjóðalög heldur einnig skaða alvarlega trúverðugleika Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Leiðtogar í Evrópu hafa enda ítrekað skuldbindingar sínar um að verja fullveldi Grænlands, sem á móti heitir að halda í heiðri og styrkja alþjóðalög.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kaup Bandaríkjanna á landsvæði af danska konungsríkinu koma til umræðu. Þannig keyptu Bandaríkin hinar áður dönsku Vestur-Indíur (nú Bandarísku Jómfrúareyjar) á árinu 1916. Í þeim samningi sem þá var gerður um þau kaup afsöluðu Bandaríkin öllu sér tilkalli til Grænlands og viðurkenndu fullveldi Dana yfir landinu.
Grænland hafði lagalega stöðu sem nýlenda hjá Sameinuðu þjóðunum til ársins 1953, þegar landið varð órjúfanlegur hluti af Danmörku. Sú aðgerð var harðlega gagnrýnd og því haldið fram að þessi breyting á stöðu Grænlands væri gerð án samþykkis Grænlendinga og hafi ekki uppfyllt ákvæði alþjóðlaga. Frá árinu 2009 hefur grundvallarréttur Grænlands sem "þjóðar (e. People)" samkvæmt alþjóðalögum verið viðurkenndur í dönskum og grænlensku sjálfstjórnarlögunum. Þennan sjálfsákvörðunarrétt hafa íbúar Grænlands samkvæmt alþjóðalögum og geta nýtt sér hann hvenær sem er.
Viðbrögð Grænlands við ummælum Trumps hafa verið ákveðin og skýr. Egede forsætisráðherra, lagði áherslu á að framtíð Grænlands væri í höndum íbúa landsins og hafnaði öllum utanaðkomandi tilraunum til að hafa áhrif á þær ákvarðanir sem þeir kynnu að taka. Þessi viðbrögð eru í samræmi við víðtækari meginreglu um sjálfsákvörðunarrétt þjóða sem kveðið er á um í alþjóðalögum. Vivian Motzfeldt, sjálfstæðis- og utanríkisráðherra Grænlands, sendi sömuleiðis frá sér yfirlýsingu þar sem hann áréttar: "Grænland tilheyrir Grænlandi - og þróun og framtíð Grænlands verður eingöngu ákvörðuð af þjóðinni sjálfri." Hins vegar bauð hún einnig fram sáttahönd og tjáði vilja um áframhaldandi samstarf við Bandaríkin sem mikilvæga bandalagsþjóð.
Umræða um sjálfstæði Grænlands hefur verið áberandi á undanförnum árum. Sjálfstjórnarlögin frá 2009 veittu Grænlandi yfirráð yfir flestum innanlandsmálum, þar á meðal jarðefnaauðlindum, og kveða á um skýra leið til sjálfstæðis ef svo ber undir. Árið 2023 sendi sérstök nefnd sem skipuð var af ríkisstjórn Grænlands frá sér drög að stjórnarskrá fyrir sjálfstætt Grænland. Þessi drög, sem eru enn í opinberri umræðu, endurspegla vilja Grænlendinga til að kasta af sér hlekkjum nýlendustefnunnar eins og Egede forsætisráðherra Grænlands orðaði það í nýársávarpi sínu.
Samband Grænlands við Danmörku hefur einkennst af kerfisbundnu óréttlæti. Tilraunir á grænlenskum börnum, launamismunun, aðskilið skólastarf, lagaleg mismunun gagnvart grænlenskum ferðum barna sem getin voru utan hjúskapar, þvingaðar getnaðarvarnir og hlutdræg hæfnipróf foreldra til að fara með forsjá barna sinna hafa skilið eftir djúp ör í huga Grænlendinga. Þó að fjárhagslegur stuðningur frá Danmörku sé áfram mjög mikilvægur í efnahagslífi Grænlands, ber á vaxandi vilja þeirra til að verða fjárhagslega sjálfsbjarga og tala margir stjórnmálamenn fyrir því að leitað sé stuðnings og samstarfs við aðra en Dani í þeim efnum. Þingkosningar eiga að fara fram á Grænlandi eigi síðar en 6. apríl næstkomandi og er líklegt að sjálfstæði verði lykilatriði í kosningabaráttunni sem framundan er.
Myndin sýnir útsýni yfir Nýlenduhöfnina í Nuuk á Grænlandi. Þar er að sjá Inuksuk sem gnæfir yfir höfninni. (höf. Rachael Lorna Johnstone, 2024).
Almenn stefnumótunar- og öryggisumræða á norðurslóðum er reist á þeirri forsendu að mikilvægi Grænlands í alþjóðapólitíkinni liggi í staðsetningu landsins og þeim auðlindum sem þar er að finna í jörðu. Grænland gegnir mikilvægu hlutverki í öryggisramma NATO, sérstaklega svæði sem kenna má við Grænland-Ísland-Bretland (GIUK). Bandaríkin hafa haldið úti geimstöðinni Pituffik (áður Thule flugherstöð) síðan í seinni heimsstyrjöldinni, sem undirstrikar mikilvægi Grænlands fyrir bandarískt eftirlit og eldflaugavarnir á norðurslóðum. Nýjar siglingaleiðir og vitneskja um mögulega vinnslu auðlinda úr jörðu hafa komið Grænlandi í fremstu röð í alþjóðasamskiptum. Grænland er ríkt af sjaldgæfum málmum og öðrum jarðefnum, auðlindum sem eru nauðsynlegar fyrir orkuskipti og aðra nútímatækni og þróunar nýrrar tækni. Bandaríkin, Evrópusambandið og aðrar þjóðir hafa mikinn áhuga á þessum möguleikum til að þurfa ekki að reiða sig á svæði undir yfirráðum Kínverja. Áhugi Trumps á Grænlandi endurspeglar þessi alþjóðapólitísku og efnahagslegu sjónarmið. Grænlenskir leiðtogar hafa á hinn bóginn ávallt lagt áherslu á að hvers kyns samstarf, hvort sem það er við Bandaríkin eða aðrar þjóðir, verði á forsendum Grænlendinga sem fullvalda þjóðar og verði að samræmast langtímamarkmiðum þeirra sjálfra.
Tillaga Trumps um að beita valdi til að stjórna Grænlandi vekur alvarlegar áhyggjur af veikingu alþjóðlegra viðmiða og reglna. Hótun um efnahagsþvinganir gegn Danmörku, sem segja má að séu ekki jafn langsóttar og beiting hervalds, ef þeir þýðast ekki Bandríkin, bendir til afturhvarfs til "pólitíkur hins sterka" sem þröngvar vilja sínum upp á aðra til að fá hagsmunum sínum framgengt í stað samvinnu innan ramma alþjóðalaga. Meginreglan um sjálfsákvörðunarrétt er hornsteinn nútíma þjóðaréttar. Íbúar Grænlands hafa einkarétt á að ákveða pólitíska framtíð sína, hvort sem það er með áframhaldandi tengslum við Danmörku, fullu sjálfstæði eða með öðrum ráðstöfunum. Ef þessu grundvallarviðmiði í samskiptum ríkja er hafnað af öflugasta ríkinu á vesturhveli jarðar veikir það allt heimsskipulagið. Þess vegna eru eindregnar stuðningsyfirlýsingar við fullveldi Grænlands frá Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi og öðrum ríkjum, mikilvægar til að styðja við ríkjandi skipan. Þessi orðræða þrengir líka að samstarfinu innan NATO. Danir hafa ítrekað skuldbindingu sína við fullveldi Grænlands og sérhver ætluð ógn við þetta fullveldi er til þess fallin að skapað sundrungu innan NATO og veitt andstæðingum NATO eins Rússlandi og Kína tækifæri til að nýta sér slíkan ágreining meðal annars með því að skapa upplýsingaóreiðu.
Utanríkisstefnu Grænlands 2024 - 2033 ber titilinn "Grænland í heiminum: Ekkert um okkur án okkar". Þótt þar sé gert ráð fyrir auknu alþjóðleg samstarfi, er framtíð Grænlands fyrir íbúa þess að ákveða. Þetta þýðir að við öll, og við meinum ÖLL, ættum að hlusta á og spyrja Grænlendinga um framtíð landsins, sérstaklega lýðræðislega kjörna fulltrúa þeirra. Þetta er kjarni sjálfsákvörðunarréttarins. Eins og Múte Egede lagði áherslu á, "Framtíðin er okkar og okkar að móta." Ögrandi yfirlýsingar Donald Trump, hvað skilning sem menn vilja leggja í þær, undirstrika betur en nokkru sinni fyrr mikilvægi þess að virða fullveldi og sjálfsákvörðunarrétt þjóða.
Fyrir Bandaríkin eru tengsl við Grænland tækifæri til að styrkja norðurslóðastefnu og sambönd sín á þessum slóðum. Þessum markmiðum verður aftur á móti að sækjast eftir að ná með diplómatískum samskiptum og samvinnu, ekki þvingunum. Eftir því sem norðurslóðir verða miðlægari í alþjóðasamskiptum mun hlutverk Grænlands fara vaxandi. Áskorun allra aðila er að tryggja að leið Grænlands fram á við sé í samvinnu við grænlensku þjóðina og með hagsmuni hennar leiðarljósi án við utanaðkomandi þrýstings.
Höfundar Romain Chuffart prófessor Nansen í norðurslóðafræðum við Háskólann á Akureyri og Rachael Lorna Johnstone prófessor við lagadeild Háskólans á Akureyri og við Ilisimatusarfik (Háskólann á Grænlandi). Rachael er eining Fulbright Arctic Initiative styrkþegi.