Prime Minister's Office of Iceland

01/24/2025 | Press release | Distributed by Public on 01/24/2025 08:47

Anna Rut, Anna Sigrún og Sveinbjörn ráðin aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar

Anna Rut Kristjánsdóttir, Anna Sigrún Baldursdóttir og Sveinbjörn Finnsson hafa verið ráðin aðstoðarmenn ríkisstjórnarinnar.

Anna Rut mun sinna almennri samhæfingu og Anna Sigrún verður ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum með áherslu á samhæfingu verkefna velferðarþjónustunnar. Þær hafa báðar hafið störf. Sveinbjörn mun vinna að samhæfingu á sviði atvinnustefnu og loftslagsmála og hefur störf á næstu mánuðum.

Anna Rut er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur frá árinu 2021 starfað hjá umboðsmanni Alþingis, lengst af sem skrifstofustjóri kvartanasviðs. Á árunum 2014 til 2019 starfaði hún sem lögfræðingur hjá umboðsmanni Alþingis og leysti tímabundið af sem lögfræðingur við Mannréttindadómstól Evrópu.

Þá starfaði Anna Rut sem lögfræðingur í forsætisráðuneytinu 2020 til 2021 og á skrifstofu rektors Háskóla Íslands 2019 til 2020 auk þess að sitja í úrskurðarnefnd velferðarmála árin 2020 til 2021. Anna Rut hefur undanfarin ár sinnt stundakennslu, m.a. í stjórnsýslurétti, opinberri stjórnsýslu og starfsmannarétti á grunn- og meistarastigi við lagadeild og stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Anna Sigrún er með BS próf í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík auk þess sem hún stundaði nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Hún var síðustu ár skrifstofustjóri öldrunarmála hjá Reykjavíkurborg en áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri, aðstoðarmaður forstjóra, fjármálaráðgjafi og hjúkrunarfræðingur á Landspítala.

Anna Sigrún var einnig aðstoðarmaður félags- og tryggingamálaráðherra 2009 til 2011 og aðstoðarmaður velferðarráðherra 2011 til 2013. Þar áður starfaði hún sem hjúkrunarfræðingur í Stokkhólmi og víðar og rak m.a. eigið fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu í Reykjavík.

Sveinbjörn er með BSc gráður í eðlisfræði og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, MSc gráðu í orkuverkfræði frá ETH í Zürich og alþjóðlega IMPA vottun í verkefnastjórnun. Hann hefur starfað hjá Landsvirkjun frá árinu 2015, síðast sem forstöðumaður verkefnaþróunar á sviði viðskiptaþróunar og nýsköpunar. Áður sinnti hann alþjóðlegri viðskiptaþróun og viðskiptagreiningu hjá fyrirtækinu.

Í störfum sínum hjá Landsvirkjun hefur hann m.a. leitt stefnumótun um alþjóðlega starfsemi fyrirtækisins, farið fyrir samningaviðræðum við nýja viðskiptavini og stýrt verkefnum sem snúa að orkuskiptum í íslensku atvinnulífi.