01/12/2026 | Press release | Distributed by Public on 01/12/2026 07:20
Norræna ráðherranefndin um byggða- og skipulagsmál (MR-R) hefur auglýst útboð um að gera samanburðarskýrslu um hlutverk skipulagskerfa Norðurlandanna við að laða að og halda í stór og stefnumótandi framleiðslufyrirtæki (e. The role of the Nordic planning systems in attracting and retaining large and strategic manufacturing companies).
Verkefnið tengist stefnumótun á sviði byggðamála, skipulags og svæðisbundinnar samkeppnishæfni og er hluti af forgangsverkefnum danskrar og færeyskrar formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2026. Markmið skýrslunnar er m.a. að styrkja þekkingargrunn fyrir stefnumótun sem styður við sjálfbæra byggðaþróun og efnahagslega seiglu á Norðurlöndum. Verkefnið byggir á umræðu um samkeppnishæfni Norðurlanda og Evrópu, meðal annars í ljósi nýlegrar skýrslu Mario Draghi um samkeppnishæfni ESB.
Útboðið er auglýst í Mercell-útboðskerfinu og er öllum áhugasömum aðilum á Norðurlöndum og víðar heimilt að taka þátt. Frestur til að skila tilboðum er 6. febrúar 2026 kl. 12.