Government Offices of Iceland

09/20/2024 | Press release | Distributed by Public on 09/20/2024 10:23

Viðlagaæfing Norðurlanda og Eystrasaltslanda 2024

Undanfarna daga hafa stjórnvöld Norðurlanda og Eystrasaltslanda, sem bera ábyrgð á fjármálastöðugleika, æft viðbúnað við fjármálaáfalli á svæðinu þar sem þrír ímyndaðir bankar með starfsemi yfir landamæri áttu hlut að máli. Tæplega 450 fulltrúar umræddra stjórnvalda frá Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Íslandi, Lettlandi, Litháen, Noregi og Svíþjóð tóku þátt í æfingunni, auk fulltrúa viðeigandi stjórnvalda Evrópusambandsins, þ.e. framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Seðlabanka Evrópu, Evrópsku skilavaldsstofnunarinnar (SRB) og Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA). Þá tók starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þátt sem áheyrnarfulltrúi.

Megintilgangur æfingarinnar var að prófa samvinnu, samskipti og upplýsingamiðlun stjórnvalda landanna þegar fjármálaáfall ríður yfir, mikil óvissa er ríkjandi og tími naumur. Æfingin var hönnuð í samræmi við áfallasviðsmynd þar sem ímyndaðir bankar fóru í gegnum þrjú stig í viðbrögðum við bankaáfalli: 1) frá hefðbundinni starfsemi til endurbótaaðgerða þar sem tekist er á við lausafjárvanda, 2) frá endurbótum til skilameðferðar þar sem skilastjórnvald fer með yfirráð yfir banka, og 3) eftir skilameðferð þar sem endurreistur banki hefur starfsemi að nýju. Á meðan á æfingunni stóð beittu stjórnvöld þeim tækjum og heimildum sem þau hafa yfir að ráða samkvæmt lögum um bankaeftirlit og viðbúnað við fjármálaáfalli.

Æfingin tókst vel og munu stjórnvöld draga lærdóm af æfingunni í því skyni að efla viðbúnað gegn fjármálaáföllum og styrkja umgjörð viðbúnaðarstjórnunar á Norðurlöndum og Eystrasaltssvæðinu.

Til að undirbúa æfinguna var undirbúningsteymi stofnað á árinu 2023 á vegum fjármálastöðugleikahóps Norðurlanda og Eystrasaltslanda (Nordic Baltic Stability Group - NBSG) undir forystu fjármálastöðugleikastjórnvalda í Danmörku. Teymið hefur notið ráðgjafar Oliver Wyman við undirbúning æfingarinnar. NBSG samanstendur af ráðuneytum, seðlabönkum, eftirlitsstjórnvöldum og skilastjórnvöldum í þátttökulöndunum átta. Stjórnvöld á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndum hafa samþykkt að halda reglulega viðlagaæfingar við fjármálaáfalli á grunni NBSG-samstarfsins.