Results

Government Offices of Iceland

11/14/2024 | Press release | Distributed by Public on 11/14/2024 08:17

Tvíhliða samráð Íslands og Spánar

Tvíhliða samráð Íslands og Spánar fór fram öðru sinni í Madríd í gær þar sem rætt var um sameiginlega hagsmuni ríkjanna á alþjóðavettvangi og vaxandi samskipti ríkjanna. Ríkin fagna 75 ára stjórnmálasambandi í ár og af því tilefni efndu Íslandsstofa, Spænsk-íslenska verslunarráðið og sendiráð Íslands í París til viðskiptadagskrár í Madríd með þátttöku fulltrúa atvinnulífsins.

Samskipti Íslands og Spánar byggja á traustum grunni til viðskipta með sjávarafurðir og ferðaþjónustu og mikill fjöldi Íslendinga dvelur langdvölum á Spáni. Til að styrkja samskiptin enn frekar var reglubundnu samráði ríkjanna komið á fót fyrir rúmu ári síðan og fór það fram öðru sinni í gær í Madríd í tengslum við 75 ára afmælisdagskrá í borginni. María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóðapólitískra málefna, leiddi sendinefnd Íslands, ásamt Unni Orradóttur, sendiherra Íslands í París, og Ainhoa Fábrega, skrifstofustjóri Evrópumála og Alberto Ucelay, skrifstofustjóri alþjóðaöryggismála, fóru fyrir sendinefnd Spánar.

Ísland og Spánn vinna þétt saman á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna, þar með talið í mannréttindaráðinu þar sem þau taka bæði sæti um áramót til þriggja ára. Auk þessa var rætt um stöðuna í Úkraínu og Mið-Austurlöndum og leiðir til að efla tvíhliða samstarf ríkjanna, meðal annars á sviði rannsókna og loftslagsaðgerða.

Þá tók María Mjöll, fyrir Íslands hönd, þátt í hringborðsumræðum Norðurlandanna og Spánar um stöðu öryggismála í Evrópu og næsta nágrenni þar sem Úkraína, norðurslóðir og óstöðugleiki og vopnuð átök í Afríku og Mið-Austurlöndum bar hæst.

Í tilefni af 75 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Spánar efndu Íslandsstofa, Spænsk-íslenska viðskiptaráðið og sendiráð Íslands í París til sérstakrar viðskiptadagskrár í Madríd dagana 12. og 13. nóvember með sendinefnd íslenskra fyrirtækja og fulltrúa spænskra stjórnvalda, viðskiptalífs og fjölmiðla. Dagskránni lauk með kynningarviðburði með norðurljósaþema þar sem sendiherra Íslands gagnvart Spáni, Unnur Orradóttir Ramette, flutti opnunarávarp, og Íslandsstofa kynnti íslenskar sjávarafurðir og ferðaþjónustu.